Dönsk stjórnvöld hafa látið undan miklum þrýstingu Kínverja og heitið því, að Danmörk muni ekki styðja sjálfstæði Tíbeta. Kínversk stjórnvöld reiddust því mjög þegar Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, átti fund með Dalai Lama, andlegum leiðtoga Tíbeta, í Kaupmannahöfn í lok maí.
Í kjölfar þessa fundar beittu Kínverjar Dani ýmsum óformlegum refsiaðgerðum, sem höfðu talsverð áhrif á danskt atvinnulíf. Þá var dönskum ráðherraheimsóknum til Kína ýmist frestað eða aflýst. Að sögn danskra fjölmiðla jókst þrýstingurinn enn í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem nú stendur yfir í Kaupmannahöfn og dönsk stjórnvöld hafi nú látið undan og fallist á að viðurkenna óskoruð yfirráð Kínverja yfir Tíbet.
Per Stig Møller skýrði utanríkismálanefnd danska þingsins frá þessu í vikunni. Hefur þetta verið gagnrýnt og segir Danski þjóðarflokkurinn, sem á aðild að dönsku ríkisstjórninni, að þetta samkomulag sé „hneykslanleg undanlátssemi við kínversku einræðisstjórnina."
Stig Møller vísar gagnrýninni á bug og segir, að sögn Berlingske Tidende, að nauðsynlegt hafi verið að leysa þessa deilu. Dönsk stjórnvöld hafi aðeins skýrt afstöðu sína til Kína og undirstrikað að þau muni ekki styðja sjálfstæði Tíbets.
Að sögn Berlingske Tidende felst einnig í samkomulagi Dana og Kínverja, að dönsk stjórnvöld muni fara að með gát ef Dalai Lama heimsækir Danmörku í framtíðinni. Blaðið segir, að kínversk stjórnvöld hafi á móti fallist á að hætta aðgerðum gegn dönskum stjórnvöldum og fyrirtækjum.
Blaðið hefur eftir embættismönnum í utanríkisráðuneytinu, að Frakkar hafi orðið að ganga lengra til að koma samskiptum sínum við Kínverja í eðlilegt horf í kjölfar fundar Frakklandsforseta með Dalai Lama.