Barack Obama Bandaríkjaforseti er kominn til Óslóar til að taka við friðarverðlaunum Nóbels. Norska lögreglan er með gríðarlegan öryggisviðbúnað í borginni, hinn mesta í sögu landsins.
Tvær herþyrlur fljúga yfir hótel þar sem Obama hyggst gista og um 2.000 til 2.500 lögreglumenn eru á varðbergi. Vegatálmar hafa verið settir upp meðfram gangstéttum helstu breiðstræta borgarinnar. Vegabréfaeftirlit hefur verið hert og flugskeytum komið fyrir við flugvöllinn og í grennd við Ósló.
Þetta er umfangsmesta lögregluaðgerð sem norsk stjórnvöld hafa skipulagt. Hún er sögð kosta um 92 milljónir norskra króna, um tvo milljarða íslenskra. Það er rúmlega tíu sinnum hærri fjárhæð en friðarverðlaunahafinn fær í sinn hlut.
Obama verður í borginni í einn sólarhring. Talsmaður hans sagði að forsetinn hygðist ræða stríðið í Afganistan og þýðingu þess fyrir baráttuna fyrir friði í heiminum í ræðu sem hann flytur þegar hann tekur við friðarverðlaununum.