Obama heldur heim

Bandarísku forsetahjónin ganga um borð í flugvél sína á Gardemoenflugvelli.
Bandarísku forsetahjónin ganga um borð í flugvél sína á Gardemoenflugvelli. Reuters

Bandarísku forsetahjónin Barack og Michelle Obama héldu heim á leið frá Gardemoenflugvelli laust eftir klukkan 10 í morgun eftir sólarhrings heimsókn til Noregs þar sem forsetinn tók við friðarverðlaunum Nóbels.

Heimsókn Obama vakti að vonum mikla athygli í Noregi. Um 10 þúsund manns söfnuðust saman í gærkvöldi utan við Grand Hotel í miðborg Óslóar þar sem haldið var kvöldverðarboð forsetanum til heiðurs. Beið fólkið á torginu utan við hótelið með blys í hendi eftir að forsetahjónin kæmu út á svalir hótelsins.

Skammt frá tóku um 2000 manns þátt í mótmælagöngu gegn stríðsrekstri Bandaríkjamanna og annarra ríkja í Afganistan.

Ræða forsetans, þegar hann tók við friðarverðlaununum, vakti mikla athygli en þar færði Obama rök fyrir því, að að stundum þyrfti að beita hervaldi til að stuðla að friði og öryggi í heiminum. Hann sagði meðal annars að sagan sýndi að Bandaríkin þyrftu að vinna með öðrum löndum í öryggismálum í stað þess að grípa til einhliða aðgerða og Atlantshafsbandalagið væri enn „ómissandi“. Markmiðið væri ekki aðeins að berjast fyrir friði, heldur einnig réttlæti, því að aðeins „réttlátur friður“ gæti verið varanlegur. 

Í kvöldverðarboðinu á Grand Hotel flutti Thorbjørn Jagland, formaður norsku verðlaunanefndarinnar, ræðu þar sem hann útskýrði þær ástæður sem lágu að baki því að Obama hlaut Nóbelsverðlaunin. Eftir ræðuna flutti Obama skálaræðu og sagði að Jagland hefði haldið góða ræðu. „Hann sannfærði mig næstum því um að ég ætti verðlaunin skilið," sagði Obama, lyfti síðan glasi sínu og sagði „skål" á norsku.

Í kvöldverðinum á Grand Hotel var norskur matur á boðstólum, þar á meðal hreindýrakjöt og þorskur í forrétti og elgsteik í aðalrétt.

Von er á Obama til Kaupmannahafnar 18. desember þar sem hann mun taka þátt í lokaspretti loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Michelle og Barack Obama veifa af svölum Grand Hotel í …
Michelle og Barack Obama veifa af svölum Grand Hotel í gærkvöldi. Reuters
Veislugestir snæddu þorsk og elg á Grand Hotel í Ósló …
Veislugestir snæddu þorsk og elg á Grand Hotel í Ósló í gærkvöldi. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert