Stjórnmálaflokkur Kúrda bannaður í Tyrklandi

Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands. Reuters

Tyrkneskur stjórnlagadómstóll hefur bannað stærsta kúrdíska stjórnmálaflokk landsins. Þetta staðfestir Hasim Kilic, formaður dómstólsins. Frá þessu er greint á vef danska dagblaðsins Politiken.

Ástæða bannsins er sögð tengsl Demókratíska samfélagsflokksins (DTP) við kúrdíska uppreisnarmenn og að þau tengsl ógni einingu landsins.

Samkvæmt ákvörðun stjórnlagadómstólsins verða Ahmet Türk, formaður DTP, og Aysel Tüglük, formaður þingflokksins, sviptir friðhelgi því sem þingmenn tyrkneska þingsins njóta. Þeim verður, ásamt 35 öðrum meðlimum stjórnmálahreyfingarinnar, meinað að taka þátt í stjórnmálum landsins næstu fimm árin.

Niðurstaða stjórnlagadómstólsins var einróma, en alls ellefu dómarar dæmdu í málinu.

Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, hafði áður varað við því að kúrdíski stjórnmálaflokkurinn verði bannaður þar sem hann óttast að það myndi leiða til meira öfgahyggju í röðum Kúrda.

Niðurstaða stórnlagadómstólsins kemur á sama tíma og ríkisstjórnin vinnur að því að veita Kúrdum aukin réttindi í von um að með því sé hægt að stilla til friðar, en Kúrdar hafa barist fyrir réttindum sínum í suðausturhluta Tyrklands sl. aldarfjórðung.
 
Saksóknari Tyrklands ásakaði meðlimi DTP árið 2007 um að hafa sterk tengsl við Kúrdíska verkamannaflokkinn (PKK) sem er bannaður í landinu. Sá flokkur er talinn standa að baki uppreis Kúrda í Tyrklandi og er á skrá Evrópusambandsins yfir hryðjuverkasamtök. Forsvarsmenn DTP neita að lýsa PKK sem hryðjuverkasamtökum og hafa ítrekað varið aðgerðir flokksins og leiðtoga hans, Abdullah Öcalan, sem nú situr í fangelsi,

Leiðtogar DTP hafa varað við því að verði hreyfingin bönnuð muni það leiða til aukinna átaka í suðausturhluta landsins og hafa einnig hótað því að allir meðlimir flokksins á þingi, alls 21 þingmaður, muni gefa eftir sæti sín í tyrkneska þinginu.

DTP sem stofnuð sem stjórnmálahreyfing árið 2005 i framhaldi af því að kúrdískum stjórnmálaflokkum sem þóttu hafa tengsl við PKK var bannað að starfa í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert