Áhöfn Skálabergs á leið heim

Togarinn Skálaberg.
Togarinn Skálaberg.

Rússnesk stjórnvöld hafa heimilað hluta áhafnar færeyska togarans Skálabergs að fara heim en togarinn hefur verið kyrrsettur í Múrmansk undanfarnar vikur vegna gruns um ólöglegar veiðar í Barentshafi. 

Að sögn færeyska útvarpsins eru 26 af 32 manna áhöfn Skálabergs, nú á leið í rútu frá Múrmansk til Kirkenes í Noregi þar sem leiguflugvél frá Atlantic Airways bíður og hún mun flytja þá til Færeyja.

Gert er ráð fyrir því að mál skipsins verði tekið fyrir í réttarsal í Múrmansk á fimmtudag.  Rússneskt varðskip færði Skálaberg til hafnar 19. nóvember vegna meintra ólöglegra veiða í Barentshafi. Eigendur togarans segja að um misskilning sé að ræða því togarinn hafi veitt upp í kvóta annars færeysks togara sem var seldur fyrr á árinu. Eigendur togarans segjast hafa lagt fram tryggingu að andvirði 5,3 milljóna danskra króna, sem svarar um 130 milljónum króna.  

Skálaberg er  74,5 metra langt og 16 metra breitt og eitt stærsta fiskiskip Færeyja.  Hanus Hansen, eigandi skipsins, hefur nýlega selt japönsku félagi skipið fyrir 200 milljónir danskra króna, jafnvirði 4,9 milljarða íslenskra króna. Hann segist í samtali við danska blaðið Berlingske Tidende óttast, að ekkert verði nú af sölunni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert