Ritstjóri kínversks dagblaðs hefur verið lækkaður í tign vegna óánægju yfirvalda með viðtal sem hann tók við Barack Obama Bandaríkjaforseta.
Xiang Xi, var aðalritstjóri vikublaðsins Southern Weekend, þegar tekið var viðtal við Obama í opinberri heimsókn hans til Kína um miðjan síðasta mánuð. Hann hefur nú verið lækkaður í tign innan blaðsins vegna þrýstings frá áróðursdeild kommúnistaflokks landsins. Þetta hefur Reuters eftir þremur starfsmönnum blaðsins sem ekki þora að koma fram undir nafni.
Ekki er talið ólíklegt að meðferð kínverskra stjórnvalda á Xiang leiði til umræðu í Washington um áhrif heimsóknar Obama til Kína. Hún dregur þannig fram þær ólíku skoðanir sem kínversk og bandarísk stjórnvöld hafi haft þegar komi ritskoðun og aðgengi í opinberri heimsókn Obama. Bandarískir embættismenn lögðu mikla áherslu á það í þeirri heimsókn að Obama fengi tækifæri til þess að ræða opinberlega og beint við kínverska þegna.
Dagblaðið Southern Weekend er eitt það vinsælasta í Kína. Það þykir aðgangshart en í því er mikið lagt upp úr fréttaskýringum um félagsleg málefni, spillingu embættismanna og hroðaverk. Líkt og allir aðrir fjölmiðlar í Kína er dagblaðið undir hælnum á stjórnvöldum og þarf að sæta ritskoðun. Höfuðstöðvar þess eru í suðurhluta héraðsins Guangdong.
Athygli vakti að Obama valdi að veita aðalviðtal sitt við fyrrgreint dagblað í stað þess að fylgja fordæmi margra annarra erlendra þjóðarleiðtoga sem tala við ríkisreknu sjónvarpsstöðina sem stýrt er með harðri hendi.
Margir telja að meðferðin á Xiang nú sé gerð til þess að friðþægja áróðursdeild kommúnistaflokksins þar sem stjórnendum hennar hafi mislíkað að viðtalið við Obama var tekið án þeirra samþykkis.
Það var Hvíta húsið sem óskaði eftir viðtalinu og kínverska utanríkisráðuneyti veitti heimild fyrir því. Í framhaldinu höfðu starfsmenn Hvíta hússins samband við forsvarsmenn blaðsins og skipulögðu viðtalið. Þegar starfsmenn áróðursdeildarinnar komust að þessu gagnrýndu þeir stjórnendur blaðsins harkalega og reyndu eftir fremsta megni að hafa áhrif á hvaða spurninga yrði spurt í viðtalinu og skáru viðtalið niður við trog aðeins nokkrum klukkustundum áður en átti að prenta það.
Viðtalið var birt í styttri og mildaðri útgáfu 19. nóvember sl. og var öðrum kínverskum fjölmiðlum bannað að segja frá viðtalinu. Ritstjórar Southern Weekend birtu viðtalið á opnu í blaðinu með fjölda svarta kassa sem margir lesendur túlkuðu sem merki um það viðtalið hefði verið ritskoðuð, en löng hefð er fyrir því að nota slíka svarta kassa til þess að gefa slíkt til kynna. Ritstjórum blaðsins var jafnframt bannað að birta ljósmynd af minnismiða sem Obama skrifaði fyrir dagblaðið þar sem hann tjáði sig um mikilvægi ritstjórnarlegs frelsis fjölmiðla.