Sakar stjórnarandstöðuna um skemmdarverk

Ung írönsk kona sem styður Mirhossein Mousavi heldur á lofti …
Ung írönsk kona sem styður Mirhossein Mousavi heldur á lofti mynd af byltingarföðurnum Ruhollah Khomeini. Reuters

Ali Khamenei, erkiklerkur og æðsti leiðtogi Írans, sakar stjórnarandstöðuna í Íran um að hafa brotið lög með því að sverta minningu Ruhollah Khomeini, erkiklerks, stofnanda íslamska lýðveldisins í Íran.

Fréttir hafa borist af því að plakat af Khomeini hafi verið rifið í tætlur. Atvikið náðist á myndband og var nýverið sýnt í ríkissjónvarpi landsins. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar halda því fram að upptakan sé sviðsett.

Stjórnarandstaðan hefur gert alvarlegar athugasemdir við framkvæmd forsetakosninganna í júní sl. þar sem Mahmoud Ahmadinejad var endurkjörinn forseti landsins.

Ali Khamenei lýsti því yfir í dag að kosningunum væri lokið. Sagði hann að stjórnarandstöðunni hafa mistekist að sýna fram á réttmæti ásakana um að kosningasvik hefðu átt sér stað. Deilurnar um forsetakosningarnar leiddu af sér ein mestu mótmælin í landinu síðan íslamska lýðveldið var stofnað árið 1979 og hafa þúsundir verið handtekin og nokkrir látið lífið í átökunum.

Stjórnarandstöðunni hefur nú verið bannað að efna til mótmæla, en sl. mánudag þegar plakatið á að hafa verið rifið í tætlur, notuðu menn tækifærið og mótmæltu í tengslum við skipulagða opinbera dagskrá.
 
Í sjónvarpsávarpi Khamenei til þjóðarinnar fyrr í dag sagði hann suma efna til deilna og hvetja almenning til þess að berjast gegn stjórnkerfinu, en slíkt ryddi brautina fyrir óvini ríkisins til að grafa undan íslömsku byltingunni.

Öryggissveitir landsins hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem skýrt er tekið fram að fylgjendur Khomeinis muni ekki umbera skemmdarverkin sem beint var gegn honum. Þeir muni heldur ekki hika við að bera kennsl á þá sem að baki því stóðu og sækja þá til saka.

Mirhossein Mousavi og Mehdi Karroubi, leiðtogar stjórnarandstöðunnar sem neita að játa sig sigraða í forsetakosningunum, segja upptökurnar af skemmdarverkunum vera falsaðar.

„Ég er sannfærður um að stúdentar myndu aldrei gera neitt þessu líkt, vegna þess að ég veit að þeir dá æðstaklerkinn og eru tilbúnir til þess að fórna lífi sínu til að ná fram markmiðum hans,“ er haft eftir Mousavi í dagblaðinu Jomhouri Eslami.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert