Sakar stjórnarandstöðuna um skemmdarverk

Ung írönsk kona sem styður Mirhossein Mousavi heldur á lofti …
Ung írönsk kona sem styður Mirhossein Mousavi heldur á lofti mynd af byltingarföðurnum Ruhollah Khomeini. Reuters

Ali Khamenei, erkiklerk­ur og æðsti leiðtogi Írans, sak­ar stjórn­ar­and­stöðuna í Íran um að hafa brotið lög með því að sverta minn­ingu Ru­hollah Khomeini, erkiklerks, stofn­anda íslamska lýðveld­is­ins í Íran.

Frétt­ir hafa borist af því að plakat af Khomeini hafi verið rifið í tætl­ur. At­vikið náðist á mynd­band og var ný­verið sýnt í rík­is­sjón­varpi lands­ins. Full­trú­ar stjórn­ar­and­stöðunn­ar halda því fram að upp­tak­an sé sviðsett.

Stjórn­ar­andstaðan hef­ur gert al­var­leg­ar at­huga­semd­ir við fram­kvæmd for­seta­kosn­ing­anna í júní sl. þar sem Mahmoud Ahma­dinejad var end­ur­kjör­inn for­seti lands­ins.

Ali Khamenei lýsti því yfir í dag að kosn­ing­un­um væri lokið. Sagði hann að stjórn­ar­and­stöðunni hafa mistek­ist að sýna fram á rétt­mæti ásak­ana um að kosn­inga­svik hefðu átt sér stað. Deil­urn­ar um for­seta­kosn­ing­arn­ar leiddu af sér ein mestu mót­mæl­in í land­inu síðan íslamska lýðveldið var stofnað árið 1979 og hafa þúsund­ir verið hand­tek­in og nokkr­ir látið lífið í átök­un­um.

Stjórn­ar­and­stöðunni hef­ur nú verið bannað að efna til mót­mæla, en sl. mánu­dag þegar plakatið á að hafa verið rifið í tætl­ur, notuðu menn tæki­færið og mót­mæltu í tengsl­um við skipu­lagða op­in­bera dag­skrá.
 
Í sjón­varps­ávarpi Khamenei til þjóðar­inn­ar fyrr í dag sagði hann suma efna til deilna og hvetja al­menn­ing til þess að berj­ast gegn stjórn­kerf­inu, en slíkt ryddi braut­ina fyr­ir óvini rík­is­ins til að grafa und­an ís­lömsku bylt­ing­unni.

Örygg­is­sveit­ir lands­ins hafa sent frá sér yf­ir­lýs­ingu vegna máls­ins þar sem skýrt er tekið fram að fylgj­end­ur Khomein­is muni ekki um­bera skemmd­ar­verk­in sem beint var gegn hon­um. Þeir muni held­ur ekki hika við að bera kennsl á þá sem að baki því stóðu og sækja þá til saka.

Mir­hossein Mousavi og Mehdi Karrou­bi, leiðtog­ar stjórn­ar­and­stöðunn­ar sem neita að játa sig sigraða í for­seta­kosn­ing­un­um, segja upp­tök­urn­ar af skemmd­ar­verk­un­um vera falsaðar.

„Ég er sann­færður um að stúd­ent­ar myndu aldrei gera neitt þessu líkt, vegna þess að ég veit að þeir dá æðstaklerk­inn og eru til­bún­ir til þess að fórna lífi sínu til að ná fram mark­miðum hans,“ er haft eft­ir Mousavi í dag­blaðinu Jom­houri Eslami.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert