„Grikkland er ekki næsta Ísland“

Reuters

George Papandreou, forsætisráðherra Grikklands, varar við því að landið muni sökkva í skuldum. Hann boðar að stjórnvöld muni á næstu þremur mánuðum kynna mikinn niðurskurð í ríkisfjármálum.

„Við verðum að breyta eða sökkva,“ segir  hann, en fjárlagahalli Grikklands nemur rúmlega 12% af vergri þjóðarframleiðslu landsins. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Í síðustu viku lækkaði Fitch lánshæfismat Grikklands og metur landið sem áhættusaman stað til að fjárfesta.

Að sögn Papandreou hefur Grikklands misst stóran hluta af lánstrausti sínu sem kallar á að stjórnendur landsins grípi til aðgerða þegar í stað. Hann hefur gefið sterklega til kynna að niðurskurðurinn komi til með að verða sársaukafullur.

George Papaconstantinou, fjármálaráðherra Grikklands, hefur varið áframhaldandi aðild Grikkja að myntbandalagi Evrópu þrátt fyrir að skuldir landsins séu hærri en sem nemur þeim  3% af vergri þjóðarframleiðslu sem Evrópusambandið setur sem hámark. Segir hann Grikki hafa farið að öllum reglum og sé auk þess ekki eina landið á Evrusvæðinu sem þurfi að kljást við miklar skuldir.

„Grikkland er ekki næsta Ísland eða næsta Dúbaí... Stjórnendur landsins eru að takast á við hinar alvarlegu aðstæður,“ segir Papandreou. Opinberar skuldir Grikklands nema um 300 milljörðum evra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert