Jemenska stúlkan Nujood Ali var aðeins 10 ára þegar hún sótti um og fékk skilnað frá eiginmanni sínum sem var 20 árum eldri en hún. Nú hálfu öðru ári síðar er Ali að reyna að aðstoða Sally Sabahi, sem er aðeins 12 ára, að skilja við eiginmann sinn sem er 21 árs. Frá þessu er greint á vef dagblaðsins Los Angeles Times.
Þar kemur fram að Ali hafi upplýst að hún hyggist leggja Sabahi til nærri 500 Bandaríkjadali, sem er helmingur heimanmundsins sem hún þarf til þess að geta keypt sig lausa úr hjónabandi. Shadha Nasser, lögfræðingur Ali hefur lýst því fyrir að hún muni taka mál Sabahi að sér.
„Hjálpið Sally að komast út úr þessu ranglátu hjónabandi og leyfið henni að fara að leika sér aftur með vinum sínum og systkinum, segir Ali og bætir við: „Við erum börn, ekki leikföng.“
Skilnaður hennar á sínum tíma vakti mikla athygli en meira en helmingur stúlkna í Jemen giftast löngu áður en þær ná átján ára aldri. Hún hefur í framhaldinu orðið nokkurs konar talsmaður barnungra brúða í Jemen og m.a. gefið út bók um reynslu sína. Lög þar í landi kveða á um að giftingaraldur skuli miðast við 15 ár.
Sabahi, sem var neydd til að giftast fyrir tveimur árum, heldur því fram að eiginmaður hennar nauðgi henni reglulega. Fjölskyldumeðlimir hennar tjáðu henni að það væri algjörlega eðlilegt og gáfu henni verkjalyf þannig að eiginmaður hennar ætti auðveldara með að nauðga henni.
Um tíma var henni veitt leyfi til þess að fara aftur heim til fjölskyldu sinnar, en þegar eiginmaður Sabahis ætlaði að ná í hana aftur nokkrum vikum seinna fékk hún taugaáfall.
Fram hefur komið að faðir hennar líti ekki svo á að tengdasonur hans sé að nauðga dóttur hans þegar hann neyði hana til samfara. „Svo virðist vera sem hann hafi hrætt hana fyrstu nóttina og það er þess vegna sem hún varð svo skelfingu lostin og á núna erfitt með kynlíf,“ er haft eftir honum í Observer.
Í september sl. komst það í hámæli þegar Fawziyeh Abdullah Youssef lést af barnsförum, en hún var aðeins 12 ára gömul þegar hún lést. Í framhaldinu hafa heyrst háværar raddir þess efnis að hækka ætti giftingaaldurinn í Jemen upp í 17 ár.
Þess má geta að endurminningar Nujood Ali komu nýverið út á íslensku. Bókin var skrifuð í samvinnu við Delphine Minoui, en hún er fréttakona sem sérhæft hefur sig í málefnum Mið-Austurlanda.