Sú niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Sviss að banna byggingu bænaturna þar í landi hefur verið kærð til Mannréttindadómstólsins í Strasbourg. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.
Þar kemur fram að Hafid Ouardiri, múslími fæddur í Alsír og fyrrverandi talsmaður moskunnar í Genf, hafi lagt fram kæruna. Ouardiri krefst þess að dómstóllinn skeri úr um það hvort bannið brjóti í bágu við Mannréttindasáttmála Evrópu.
Alls samþykktu 57,5% kjósenda í Sviss bannið. Það var Svissneski þjóðarflokkurinn (SVP), stærsta stjórnmálafylking landsins, sem lagði fram tillöguna um bannið en SVP er hægriflokkur og stærsti flokkur landsins.
Ráðherrar í ríkisstjórn landsins höfðu hvatt Svisslendinga til þess að hafna banninu og vöruðu við því að það myndi brjóta gegn bæði trúfrelsi og mannréttindum og hugsanlega kynda undir ofstæki.
Að sögn Pierre de Preux, lögmanns Ouardiri, er um afar óvenjulegt mál að ræða þar sem bæði kærandi og verjandi, sem er svissneska ríkið, eru í reynd sammála í andstöðu sinni gegn nýju lagatillögunni sem meirihluti Svisslendinga styður hins vegar.
Reiknað er með að það geti tekið Mannréttindadómstólinn allt upp undir 18 mánuði að úrskurða um það hvort kæra Ouardiris sé tæk. Samþykki dómstóllinn að fjalla um kæruna gætu síðan liðið nokkur ár þar til endanlega niðurstaða
Alls búa 400 þúsund múslimir í Sviss, en í landinu er aðeins fjórir bænaturnar. Langflestir landsmenn eru kristinnar trúar en næstflestir eru múhameðstrúar.