Heita 2.500 milljörðum króna

Sakihito Ozawa umhverfisráðherra Japans.
Sakihito Ozawa umhverfisráðherra Japans. Reuters

Japönsk stjórnvöld hafa heitið því að leggja þróunarlöndunum til 19,5 milljarða bandaríkjadala, eða sem samsvarar 2.500 milljörðum íslenskra króna, ef það geti orðið til þess að deiluaðilar geti komist að sameiginlegu samkomulagi á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn.

Upphæðin jafngildir helmingi þess fjár sem talað hefur verið um að iðnríkin þurfi að leggja þróunarlöndum til svo unnt sé að komast að samkomulagi.

„Japönsk stjórnvöld taka hlutverk sitt afar alvarlega og vilja sýna ábyrgð í samfélagi þjóða á heimsvísu,“ segir Sakihito Ozawa, umhverfisráðherra Japans.

Að sögn Ozawa vonast japönsk stjórnvöld til þess að hægt verði að komast að samkomulagi sem feli í sér sanngjarnt og árangursríkt alþjóðlegt regluverk sem öll mikilvægustu lönd heims taki þátt í.

Fjárframlag Japana er það hæsta, enn sem komið er, sem heitið hefur verið í sjóð sem ætlað er að aðstoða þróunarríki heims við að takast á við loftlagsbreytingar fram til ársins 2012.

Leiðtogar Evrópusambandsins höfðu áður heitið framlagi sem nemur ríflega 1.300 milljörðum íslenskra króna. Talsmenn Bandaríkjanna hafa heitið því að leggja fram töluverða fjármuni, en Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hefur enn ekki nefnt neinar tölur í því samhengi.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka