Enn pattstaða í Kaupmannahöfn

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, kom til Kaupmannahafnar í morgun.
Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, kom til Kaupmannahafnar í morgun. Reuters

Enn er pattstaða í viðræðum á loftlagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn en aðeins tveir dagar eru nú til stefnu til að ná samkomulagi. Þróunarlönd og iðnaðarþjóðir eru enn á öndverðum meiði varðandi aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, hversu umfangsmiklar þær skuli vera og hversu mikla aðstoða eigi að veita fátækari löndum.

Þó hafa orðið einhverjar framfarir, því ríkari þjóðir hafa heitið því að leggja til nýja sjóði til að fjármagna baráttuna gegn hlýnun loftslags.

Tugir þjóðarleiðtoga eru væntanlegir á fundinn í dag í þeirri von að unnt verði að skrifa undir samkomulag á morgun. Forsætisráðherra Kína, Wen Jiabaou, kom til Kaupmannahafnar í gærkvöldi og sagðist vilja sýna með nærveru sinni hversu mikilvægan Kínverjar teldu samninginn vera.

„Ég vona að á ráðstefnunni náist sanngjörn, skynsamleg, yfirveguð og raunhæf niðurstaða með samvinnu allra aðila," sagði Wen við komuna í gær.

Danskir fjölmiðlar fullyrða hins vegar í morgun, að Kínverjar reikni ekki með að skrifað verði undir afgerandi samkomulag í Kaupmannahöfn.  Þeir hafi sagt öðrum þátttökuríkjum, að þeir vilji að ráðstefnunni ljúki með stuttri yfirlýsingu. 

Meðal þeirra sem ávarpa munu ráðstefnuna í dag eru Angela Merkel kanslari Þýskalands, Gordon Brown, Luiz Inacio Lula de Silva forseti Brasilíu og forseti Íran, Mahmoud Ahmadinejad. Þá er von á Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í dag.

Barack Obama kemur til Kaupmannahafnar á morgun, lokadegi ráðstefnunnar og verða þá alls mættir rúmlega 120 þjóðarleiðtogar til setja saman áætlun um hvernig takast eigi á við loftslagsbreytingar við lok ársins 2012, þegar skuldbindingar Kyoto bókuninnar renna út.

Enn eru þó uppi miklar efasemdir um að það takist.

Enn er deilt um losun gróðurhúsalofttegunda á Kaupmannahafnarráðstefnunni.
Enn er deilt um losun gróðurhúsalofttegunda á Kaupmannahafnarráðstefnunni. SHENG LI
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert