Þúsundir ferðamanna eru nú strandaglópar eftir að stærsta flugfélag Skotlands, Flyglobespan, varð gjaldþrota. Systurfélag þess, Globespan, fór í kjölfarið í greiðslustöðvun og var öllum flugferðum þess aflýst og 800 manns misstu vinnuna.
Um 4.500 farþegar eru strandaglópar, flestir á Spáni, Portúgal, Kýpur og í Egyptalandi. Flugmálastjórn ber ábyrgð á að koma a.m.k. 1.100 þeirra aftur til síns heima en eftir sitja 3.400 manns sem ekki hafa slíka tryggingu. Á síðasta ári fóru yfir 1,5 milljón farþega með Flyglobespan í 12.000 flugferðum.
Starfsfólk flugfélagsins hefur margt hvert ekki fengið nein skilaboð um hvort það hafi misst vinnuna eða ekki og er að sögn BBC miður sín yfir óvissunni svo stuttu fyrir jól.