Alls má veiða 27 úlfa í Svíþjóð á næsta ári en úlfaveiðar hafa verið bannaðar þar í 45 ár. Þetta var samþykkt á sænska þinginu nýverið. Er það umhverfisstofnun Svíþjóðar sem lagði til hversu marga úlfa mætti veiða en veiðar verða heimilaðar á tímabilinu 2. janúar til 15. febrúar. Er talið að þetta séu um 10% af heildarfjölda úlfa í Svíþjóð.
Samþykkt var á þinginu í október að takmarka fjölda úlfa við 210 næstu fimm árin. Verða veiðar heimilaðar á fimm svæðum þar sem úlfar hafa gotið á undanförnum árum.