Það hefur snjóað mikið í Danmörku og fram kemur á vef Berlingske Tidende að allur mannskapur Falck-björgunarsveitanna sé í viðbragðsstöðu, en í gær hafi útköllin verið 3.600 talsins. Þá er búist við því að dagurinn í dag verði enn annasamari.
Danska veðurstofan spáir frekari ofankomu og kulda næstu daga. Frá miðnætti og fram til morguns, þ.e. áður en morgunumferðin hófst fyrir alvöru, fór Falck í 450 útköll vegna umferðaóhappa í vetrarfærðinni.
Talsmaður Falck segir í samtali við Berlingske Tidende að hann eigi ekki von á öðru en að dagurinn eigi eftir að vera mjög annasamur. Veðrið undanfarna daga hafi verið sannkallað Falck-veður.
Flest útköllin koma frá Mið- og Suður-Jótlandi og Fjóni. Vandræði fólks eru að ýmsum toga. Allt frá því að koma bílum í gang yfir í það að að losa bifreiðir úr snjósköflum. Talsmaður Falck tekur þó fram að engin alvarleg slys hafi orðið.