Um 1.100 manns munu missa vinnuna í næstu viku þegar breska bókakeðjan Borders lokar 45 verslunum sínum um allt Bretland. Keðjan hefur verið í fjárhagsvandræðum og þegar ekki gekk að fá fjárfesta inn eftir töluverða leit var ákvörðun tekin um að loka keðjunni.
Starfsfólkið mun vinna síðasta vinnudag sinn á aðfangadag í næstu viku. Fyrirtækið fór í greiðslustöðvun í lok nóvember og hafa stjórnendur þess reynt síðan að finna kaupendur. Bókakeðjan opnaði fyrst í Bretlandi árið 1997 og var upphaflega í eigu Bandaríska bókarisans sem ber sama nafn.