Samkomulag ekki bindandi

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, segir að samkomulag sem náðist á fundi þjóðarleiðtoga í Kaupmannahöfn í kvöld um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sé ekki lagalega bindandi. Bandaríkin munu leggja fram 3,6 milljarða dala á árunum 2010 til 2012 til að gera fátækari ríkjum kleift að draga úr losun.

Obama fagnaði samkomulaginu og sagði að það væri án fordæma og afar þýðingarmikið en það nægði þó ekki til að koma í veg fyrir hlýnun andrúmsloftsins.  Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, sagði að Þjóðverjar hefðu boðist til að halda aðra loftslagsráðstefnu í Bonn eftir hálft ár til að fylgja eftir því starfi, sem unnið var í Kaupmannahöfn. 

Fram kom í máli Obama, að hann myndi fara frá Danmörku í kvöld áður en lokaatkvæðagreiðsla fer fram á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um samkomulagið.  

AFP fréttastofan segir, að í uppkasti að samkomulagstexta komi fram að Bandaríkin muni leggja til 3,6 milljarða dala á tímabilinu 2010 til 2012  til að greiða fyrir því að fátækari ríki geti dregið úr loftmengun. Japan mun leggja til 11 milljarða dala og Evrópusambandið 10,6 milljarða dala. 

Að sögn evrópsks sendimanns verður ekki ákveðið fyrr en í janúar hvaða markmið verða sett um losun gróðurhúsalofttegunda árið 2020. Þá er ekki kveðið á um við hvaða ár er miðað sem hámark losunarinnar.

En bandarískir heimildarmenn segja, að í samkomulaginu felist skuldbindingar auðugra ríkja um að hitastig hækki ekki um meira en 2 gráður.

Samkomulagið náðist í viðræðum Obama og leiðtoga Kínverja, Indlands, Brasilíu og Suður-Afríku auk lykilríkja í Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert