Bandarískum karlmanni hefur verið sleppt úr fangelsi eftir að DNA-próf sýndi fram á hann hann væri saklaus. Hann var dæmdur í fangelsi árið 1974. Enginn hefur setið jafn lengi saklaus á bak við lás og slá og verið síðan sleppt.
James Bain, sem er 54 ára, var dæmdur í fangelsi fyrir að hafa rænt og nauðgað níu ára gömlum dreng fyrir 35 árum.
Bain, sem var sleppt úr fangelsi í Flórída í gær, segist ekki vera reiður heldur að trúin hafi hjálpað sér, að því er fram kemur á vef breska útvarpsins.
Hann hefur ávallt haldið sakleysi sínu fram. Hann áfrýjaði dómnum og var málið tekið til endurskoðunar. Þegar hann kom fyrir dómara í síðasta sinn var hann klæddur í bol sem á stóð „Saklaus“.
Bain var aðeins 19 ára gamall þegar hann var dæmdur í fangelsi. Hann segist hafa farið í gegnum tilfinningalegan rússíbana, en þrátt fyrir það líði sér ótrúlega vel.
Það fyrsta sem hann ætlaði að gera sem frjáls maður var að heimsækja móður sína.