Biðu í 16 tíma í göngunum

Miklar umferðartafir urðu vegna lokunar Ermasundsganganna.
Miklar umferðartafir urðu vegna lokunar Ermasundsganganna. LUKE MACGREGOR

Farþegar sem voru fastir inn í Ermasundsgöngunum vegna bilunar lýsa vistinni þar sem algjörri martröð. Sumir farþegar voru fastir í göngunum í 16 klukkustundir.

Ástæða bilunarinnar er talin vera mikill kuldi í Frakklandi. Þegar lestirnar komu inn í göngin, þar sem var allt annað hitastig, virðist rafkerfi þeirra hafa bilað. Meira en 2000 manns voru fastir í lestunum í marga klukkutíma.

Sumar lestirnar voru fljótlega yfirgefnar, en í öðrum beið fólk tímunum saman eftir hjálp. Fólk beið þar án matar eða vatns. Eurostar, sem rekur lestirnar í Ermasundsgöngunum, hefur fellt niður allar ferðir um göngin í dag. Fyrirtækið hefur beðið farþega afsökunar á þeim óþægindum sem fólk hefur orðið fyrir.

Lucy Morris, 20 ára námsmaður frá London, sagði í samtali við við BBC, að ferð hennar frá París, sem hefði átt að taka tvo tíma og tuttugu mínútur, hefði tekið meira en 16 klukkutíma. Hún var föst í lest í göngunum í fimm tíma. Henni var síðan gert að flytja sig í aðra lest og þar beið hún í marga klukkutíma til viðbótar.

Morris sagði að skipulag björgunaraðgerða hefði verið verulega ábótavant. „Ég er uppgefin og reið yfir hvernig komið var fram við mig.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert