Mjög kalt er víða í Evrópu þessa dagana. Snjóað hefur víða með tilheyrandi truflunum á samgöngum. Spáð er köldu veðri á meginlandinu næstu daga.
Í dag var 6 stiga frost í Amsterdam, 12 stiga frost í Berlín, 9 stiga frost í Lúxemborg, 4 stiga frost í Kaupmannahöfn og 1 stigs frost í Mílanó. Þá var aðeins 7 stiga hita í Mallorca.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir á bloggsíðu sinni að Grænlandshæðin sé öflug sem leiði til vetrarkulda á meginlandi Evrópu. Ekki séu horfur á að lát verði á þessum kuldum alveg á næstunni. Segja megi að heimskautaloft sé nú ráðandi við N-Atlandshaf. Síberíukuldi af einhverju tagi hafi náð tangarhaldi á meginlandinu allt vestur til Spánar.