Miklar líkur eru taldar vera á því að frumvarp Baracks Obama Bandaríkjaforseta um breytingar í heilbrigðismálum verði samþykkt í öldungadeild. Varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden, segir í innsendri grein í New York Times að frumvarpið sé ekki fullkomið en þó mjög gott.
Ben Nelson, þingmaður Demókrata í öldungadeildinni, hefur lýst því yfir að hann ætli að styðja frumvarp Obama og er það talið auka verulega líkur á að frumvarpið verði samþykkt í öldungadeild. Með atkvæði hans nást þau 60 atkvæði sem nauðsynleg eru til að það fáist samþykkt og vonast forsetinn til þess að það verði fyrir jól.Þá er háttsettur ráðgjafi Obama, David Axelrod, bjartsýnn á að frumvarpið verði samþykkt af báðum deildum á þingi.