42 hafa frosið í hel í Póllandi

Að minnsta kosti 42 hafa látist af völdum mikilla kulda á Póllandi síðustu þrjá daga. Kuldinn hefur farið niður fyrir 20 stig á Celsíus en alls hafa nú 69 Pólverjar látist vegna ofkælingar í desember.

Sex dóu á föstudag, 15 á laugardag og 21 í gær, að því er pólska lögreglan greindi frá. 

Meirihluti þeirra sem hafa látist eru heimilislausir karlar á aldrinum 35 til 50 ára sem hafa frosið í hel eftir að hafa setið að sumbli.

Lögregla og starfsfólk bæjaryfirvalda víðsvegar í Póllandi hefur áhyggjur af útigangsfólki og hefur því hert eftirlit í görðum og á öðrum stöðum þar sem talið er að það safnist saman. Reynir lögregla að sannfæra fólkið um að koma sér í húsaskjól þar sem það getur fengið heitt að drekka og rúm til að hvílast í.

Þrátt fyrir hættuna þrást sumir drykkjumenn við að verða við boðinu heldur kjósa að dvelja úti við iðju sínu.

Almenningsgarður í Varsjá.
Almenningsgarður í Varsjá.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka