Eldgosið í Mayon-fjalli færist í aukana

Mayon fjall á Filippseyjum er í ham þessa dagana.
Mayon fjall á Filippseyjum er í ham þessa dagana. CHERYL RAVELO

Viðvörunarstig hefur nú verið hækkað á næsthæsta stig í kringum eldfjallið Mayon á Filippseyjum. Það þýðir að talið er að eldsumbrotin í fjallinu verði hættuleg innan nokkurra daga.

Nú þegar hefur hraun lekið úr fjallinu í um viku, en því er spáð að eldgosið færist í aukana. Þó hafa brestir og þrumur úr fjallinu hreyst vel í allt að 12 kílómetra fjarlægð síðustu daga.

Viðvörunarstigið var hækkað þar sem fjöldi jarðskjálfta í fjallinu tvöfaldaðist í gær. Nú er búið að flytja 40.000 manns sem búa í nágrenni fjallsins frá heimilum sínum í neyðarskýli til bráðabirgða. Engu að síður er enn talið að um 1.300 fjölskyldur séu enn heima hjá sér og neiti að fara þaðan og yfirgefa eignarlönd sín og bústofna.

„Við munum færa íbúa sem neita að fara, með valdi, á flóttamannasvæðin," segir ríkisstjórinn í Albay héraði, Joey Salceda. Nú er stefnan að tæma svæði í átta kílómetra radíus út frá fjallinu.

Mayon-fjall er 330 kílómetra frá höfuðborg Filippseyja, Manila. Það hefur gosið 48 sinnum síðan mælingar hófust. Ofsafengnasta gosið var árið 1814 og varð það meira en 1.200 manns að bana og lagði nokkra bæi í eyði. Engu að síður er eldfjallið vinsæll áfangastaður ferðamanna og er frægt fyrir fullkomna lögun sína sem eldkeila.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert