Héldu ráðstefnunni í gíslingu

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands.
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands. Reuters

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, segir nokkur ríki hafa komið í veg fyrir að meiri árangur næðist á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn með því að halda henni í „gíslingu“. Áður hafði Ed Miliband, utanríkisráðherra Bretlands, gagnrýnt Kínverja fyrir framgöngu þeirra á ráðstefnunni.

Brown setti fram gagnrýni sína í ávarpi sem flutt verður síðar í dag en þar segir hann aðeins nokkur ríki hafa komið í veg fyrir frekari árangur á ráðstefnunni sem 194 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna áttu aðild að.

Að mati Browns sýnir ráðstefnan fram á takmörk alþjóðakerfisins til að takast á við loftslagsvandann og leggur hann því til umbætur í þeim efnum.

Sósíalistar reynast Þrándur í Götu

Leiða má að því líkur að Brown sé meðal annars að vísa til sósíalistaríkjanna Venesúela og Bólivíu annars vegar og Afríkuríkisins Súdans hins vegar en fulltrúar þeirra þóttu afar stirðir í samningum í Kaupmannahöfn.

Kínastjórn styðjur Súdanstjórn sem kunnugt er með margvíslegum hætti, en hún á þar ríkra olíuhagsmuna að gæta.

Stjórnvöld í Peking hafa lýst yfir ánægju með niðurstöðuna í Kaupmannahöfn, þvert á þá gagnrýni Milibands að Kínastjórn hafi staðið í vegi raunverulegs árangurs.

Miliband gerði grein fyrir gagnrýni sinni í grein í breska dagblaðinu The Guardian en þar sagði meðal annars:

„Okkur tókst ekki að ná fram samkomulagi um 50% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2050 eða 80% samdrátt í þróuðum ríkjum. Kína beitti neitunarvaldi í báðum tilvikum, þrátt fyrir að tillögurnar nytu stuðnings bandalags þróaðra ríkja og mikils meirihluta þróunarríkja,“ skrifaði Miliband.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert