Sarkozy vill að lestar fari af stað

Reuters

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, hefur skipað stjórnarformanni Eurostar, sem sér um lestarferðir milli Parísar og Lundúna, að tryggja að ferðirnar hefjist aftur á morgun. Þær hafa legið niðri frá því aðfaranótt laugardags þegar fimm lestar biluðu niðri í Ermarsundsgöngunum. 

Eurostar tilkynnti í kjölfarið, að þjónusta lestanna geti hafist á ný á morgun ef prófanir ganga vel. Talið var að hitabreytingar hefðu valdið því að raki myndaðist í rafkerfi lestanna og því stöðvuðust þær. Mjög kalt er á meginlandi Evrópu þessa dagana. 

Fram kemur í tilkynningu frá frönsku forsetaskrifstofunni, að Sarkozy hafi einnig sagt Guillaume Pepy, sem er stjórnarformaður bæði Eurostar og franska lestarfyrirtækisins SNCF, að hann vildi að gripið verði til nýrra ráðstafana til að tryggja að óviðunandi stöðvun lestanna endurtaki sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert