Þjóðverjar herða sultarólina

Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands.
Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands.

Þýska ríkisstjórnin mun um mitt næsta ár kynna víðtæka áætlun um sparnað í ríkisútgjöldum. Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands, boðar samdrátt um 1.830 milljarða króna á ári til að stoppa upp í fjárlagagatið.

Þýska ríkið hefur ekki farið varhluta af kreppunni en til marks um áhrif niðursveiflunnar samþykkti stjórn Angelu Merkel kanslara í síðustu viku fjárlög þar sem gert er ráð fyrir að skuldir ríkisins aukist 15.740 milljarða króna á fjárhagsárinu.

Þýskaland er eitt mesta útflutningsveldi heims og bindur stjórn Merkel vonir við að hátt í 1.600 milljarða króna skattalækkanir muni örva útflutning og þar með sporna gegn atvinnuleysi í þessu stærsta hagkerfi Evrópu.

Merkel hefur í mörg horn að líta en eftir áramót mun stjórn hennar þurfa að takast á við verkalýðsfélög sem krefjast þess að laun verði hækkuð í miðri niðursveiflunni.

Meðal þeirra er Ver.di, regnhlífasamtök launþega í yfir 1.000 starfsgreinum, sem farið hefur fram á 5% launahækkun en meðlimir þess eru um 2,3 milljónir.

Schaeuble segir hins vegar „ekkert svigrúm“ fyrir hækkuninni, að því er fram kemur á vef dagblaðsins Bild-Zeitung.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert