Eurostar rennur af stað

Talsmenn lestarfyrirtækisins Eurostar, sem rekur lestarnar sem fara undir Ermarsund, boða takmarkaðar ferðir í dag, þriðjudag, en ferðir þeirra hafa legið niðri frá því að bilun kom upp á föstudag. Geysilegar tafir hafa orðið á evrópskum flugvöllum vegna kuldakastsins.

Röskunin á áætlun Eurostar hefur sett ferðir um 75.000 farþega úr skorðum en þeir sem áttu bókað far á laugardag og sunnudag munu hafa forgang þegar hjólin fara að snúast í dag.

Málið þykir mikið hneyksli og má búast við að yfirmenn Eurostar verði látnir taka pokann sinn þegar áætlunarferðir lestanna verða komnar í samt lag.

Um 150 flug voru felld niður á alþjóðaflugvellinum í Madrid í gær og voru sumir farþegarnir ekki vissir um hvort þeir kæmust heim í tæka tíð fyrir jólin.

Ástandið var litlu skárra í þýsku borginni Dusseldorf í gær en þar þurftu á milli 700 og 800 farþegar að hafast við á göngum eftir að flugáætlun fór úr skorðum vegna veðursins.

Að minnsta kosti um 80 manns hafa dáið í vetrarhörkunum í Evrópu, þar með talið útigangsmenn í Póllandi sem kusu fremur að setja að sumbli utandyra en leita skjóls frá kuldanum innandyra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert