Bin Laden tókst næstum að myrða Clinton

Bill Clinton.
Bill Clinton.

Fullyrt er í nýrri bók, að hryðjuverkaleiðtoganum Osama bin Laden hafi næstum tekist að myrða Bill Clinton, Bandaríkjaforseta. Menn bin Ladens höfðu komið fyrir sprengju undir brú sem Clinton átti að fara yfir í Manila á Filippseyjum.  

Fram kemur í bókinni, sem bandaríski lagaprófessorinn Ken Gormley hefur skrifað, að þetta hafi gerst þegar Clinton sótti ráðstefnu efnahagssamtarfs Asíuríkja, APEC, í Manila árið 1996. 

Samkvæmt dagskrá Clintons átti hann að heimsækja lögreglustöð í miðborginni. En í þann mund sem bílalest forsetans var að leggja af stað fengu leyniþjónustumenn upplýsingar um að árás kynni að vera yfirvofandi. Leyniþjónustumenn höfðu heyrt samskipti þar sem orðin „brú" og „brúðkaup" komu fyrir en þetta voru hefðbundin lykilorð hryðjuverkamanna fyrir árás.   

Ákveðið var að láta bílalestina fara aðra leið og leyniþjónustumenn fundu síðar sprengju undir brúnni.

Rannsóknir bandarískra stjórnvalda á málinu leiddu til þeirrar niðurstöðu, að sádi-arabískur hryðjuverkamaður, sem hefðist við í Amsterdam, hefði skipulagt árásina. Hann héti Osama bin Laden.  

Félagar í al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum, hafa viðurkennt að hafa viljað Clinton feigan en til þessa hafa engar upplýsingar komið fram um að bin Laden hafi tengst þeim áformum eða að þau hafi nærri tekist.   

Gormley segist hafa fengið upplýsingar um málið hjá Louis Merletti, fyrrum yfirmanni bandarísku leyniþjónustunnar. Segir hann, að þetta hafi aðeins verið á vitorði fárra til þessa.

Bók Gromleys fjallar aðallega um málarekstur Ken Starrs, sérstaks saksóknara, gegn Clinton.  Starr komst að þeirri niðurstöðu að Clinton hefði sagt ósatt eiðsvarinn í yfirheyrslu og var forsetinn í kjölfarið ákærður af Bandaríkjaþingi til embættismissis. Sú ákæra náði ekki fram að ganga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert