Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, sendi Benedikt sextána páfa í dag bréf, þar sem hann þakkaði honum fyrir stuðninginn, eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás fyrir tíu dögum síðan.
„Ég þakka hinum heilaga föður fyrir þá nánd sem hann sýndi mér eftir árásina sem ég varð fyrir. Orð hans gáfu mér mikinn styrk," skrifaði Berlusconi í bréfinu. Þar sagði hann páfanum einnig að kristin gildi ættu áfram að vera hornsteinn stjórnarstefnu ríkisstjórnar hans.
Benedikt sextándi sendi samúðarkveðjur til Berlusconis, daginn eftir að hinn 42 ára gamli Massimo Tartaglia henti afsteypu af dómkirkjunni í Mílanó í andlitið á honum. Forsætisráðherrann er nú óðum að jafna sig á árásinni í glæsihúsi sínu í nágrenni Mílanó, eftir að hafa eytt fjórum nóttum á spítala.
Tartaglia, sem gæti átt yfir höfði sér fimm ára fangelsisdóm ef hann verður sakfelldur fyrir líkamsárás, er enn í gæsluvarðhaldi, þrátt fyrir beiðni lögmanns hans um að hann verði færður á geðsjúkrahús.