María mey birtist kristnum í Egyptalandi

Kristnir Egyptar bíða þess að sjá Maríu mey birtast þeim …
Kristnir Egyptar bíða þess að sjá Maríu mey birtast þeim að nýju fyrir ofan kirkjuna í Al-Warrak í Kaíró. AFP

Síðustu nætur hafa þúsundir kristinna Egypta safnast saman í úthverfi Kaíró í von um að sjá sýn sem veitt hefur mörgum í landinu von. Um þrjúleytið síðustu nótt stóðu 10.000 manns í þögn í hverfinu Al-Warrak og störðu á himininn.

Loks birtist dularfullt ljós yfir kirkjuturni hverfisins og múgurinn rekur upp fagnaðaróp. Þau telja að ljósið sé birtingarmynd Maríu meyjar, að sögn AFP. Á hverri nóttu síðan 10. desember hefur mannfjöldi komið saman í von um að njóta blessunar ljóssins. Kristnir Egyptar eru sagðir verða fyrir kerfisbundinni mismunun og útskúfun í landinu þar sem múslímar eru í meirihluta.

Fyrsti maðurinn sem kom auga á hina meintu Maríu mey var reyndar íslamskur íbúi hverfisins. Hann tók sýnina upp á myndband og sýndi nágrönnum sínum. Í kjölfarið tóku aðrir að sjá ljósið stafa af kirkjunni og sáu jafnframt fugl fljúga í hringi ofan við hana. Um klukkan tvö um nótt birtist þeim mynd Maríu meyjar í hvítum og bláum klæðnaði.

Múslímar í hverfinu segja hinsvegar að „sýnin" sé gabb og einhver framkalli ljósið með leiser. Fréttin barst hinsvegar fljótt um allt hverfið og fjöldi fólks streymdi út á göturnar til að berja Maríu augum. „Þetta er hún, í bláum og hvítu fötunum, það leikur engin vafi á því. Þetta getur ekki verið sjónhverfing," hefur AFP eftir hinum 36 ára gamla Rami.

Annar íbúi hverfisins, tveggja barna móðirin Kawkab Munir Shehata, lýsir einnig sannfæringu sinni og segir að María mey hafi jafnvel framkvæmd á henni aðgerð og gefið henni þannig sjónina sem hún hafði misst á vinstra auga. „Það var rétt fyrir klukkan fjögur um nótt sem hún hóf aðgerð a vinstra auganu mínu. Ég fann fyrir gríðarlegum sársauka sem varði í um kortér. Síðan fylltist ég mikill gleði þegar ég uppgötvaði að ég gat séð skýrt. Vinstra augað er jafnvel betra en það hægra núna."

Sjónarvottar segja sýnina staðfestingu þess að kristni sé raunveruleg og Biblían sönn. Heilu fjölskyldurnar hafa stefnt að kirkjunni til að njóta blessunar hennar.  Prestur kirkjunnar, sr. Fishay, segir ómögulegt að segja hvers vegna María mey hafi ákveðið að birtast mönnum þarna. „Kannski verður nærvera hennar til þess að sameina fólk, kannski mun hún kalla fram endalok spennunnar í samskiptum múslima og kristinna og binda endi á öfgastefnur. Kannski mun hún færa okkur aftur fyrirgefninguna sem eitt sinn var í Egyptalandi."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert