Fjórir af fimm biskupum sem gagnrýndir voru í skýrslu um kynferðisbrot innan kaþólsku kirkjunnar á Írlandi hafa sagt af sér. Tveir biskupar tilkynntu um afsögn sína við miðnæturmessu.
Eamonn Walsh og Raymond Field, sem báðir eru biskupar í Dublin, sögðu í yfirlýsingu að þeir vonuðu að afsögn þeirra færði fórnarlömbunum frið.
Donal Murray biskup sagði af sér fyrr í þessum mánuði eftir að birt var skýrsla þar sem biskuparnir eru sakaðir um að hafa haldið leyndri vitneskju um kynferðislegt ofbeldi presta gegn börnum. Þeir héldu þessum upplýsingum leyndum til að verja heiður kirkjunnar.
Sl. miðvikudag sagði James Moriarty biskup af sér. Martin Drennan er nú eini biskupinn sem gagnrýndur er í skýrslunni sem ekki hefur sagt af sér.