Benedikt páfi messaði í Péturskirkjunni í Róm á jóladagsmorgun, nokkrum klukkutímum eftir að kona réðist á hann við upphaf messu á aðfangadagskvöld.
Páfi talaði skýrri röddu til þúsunda pílagríma sem komu til að hlýða á messuna. Ekki var að sjá að atvikið í gær hefði haft áhrif á hann. Páfi sagði að kirkjan væri farvegur fyrir samstöðu um allan heim. Hann skorað á fólk á ófriðarsvæðum að sýna fólki virðingu.
Vatikanið gaf þær upplýsingar í dag að konan sem réðist að páfa á aðfangadagskvöld hefði verið flutt á stofnun, en hún ætti við vanheilsu að stríða. Atvikið hefur vakið mikla athygli, en Vatikanið hefur reynt að gera sem minnst úr því.
Öryggismál páfa eru viðkvæmt mál fyrir Vatikanið. Ætlast er til þess að leiðtogi kaþólsku kirkjunnar taki virkan þátt í helgiathöfnum með beinum samskiptum við kirkjugesti. Vatikanið óttast að það myndi kalla á neikvæð viðbrögð ef páfi sæist einungis á bak við öryggisgler.
Hinn 82 ára gamli páfi minntist ekkert á atvikið í prédikun sinni. Hann talaði um þá sem þyrftu á hjálp að halda og þakkaði kaþólsku kirkjunni á Filippseyjum, Kóreu og Sri Lanka fyrir gott starf. Hann fordæmdi ofbeldið sem íbúar í Kongó hafa mátt þola.
Páfi óskaði kirkjugestum gleðilegra jóla á 65 tungumálum.