Komið hefur í ljós að bandaríska leyniþjónustan, CIA, lét blekkjast árið 2003 af spilafíkli sem sagði að skilaboðum til leynilegra liðsmanna al-Qaeda í Bandaríkjunum væri dreift með aðstoð dulmáls í útsendingum arabísku sjónvarpsstöðvarinnar al-Jazeera, segir í frétt Guardian.
Breska blaðið vitnar í grein í tímaritinu Playboy þar sem sagt er frá málinu og þar er fullyrt að gríðarlegt fát hafi gripið um sig í stjórnkerfinu vegan upplýsinga mannsins, hins 56 ára Dennis Montgomery. Varað var opinberlega við því að búast mætti við árás og Tom Ridge, yfirmaður öryggismála, sagði þessa viðvörun byggjast á ,,trúverðugum heimildum".
Umræddur Montgomery sagðist hafa þróað hugbúnað sem gerði sér kleift að fylgjast með undirbúningi al-Qaeda og sagði að verið væri að undirbúa mikila hryðjuverkaárás á Bandaríkin í líkingu við árásirnar 11. september 2001. Myndu umræddir ,,sleepers", þ.e. útsendarar al-Qaeda, taka þátt í árásunum.
Flugferðum frá Frakklandi og Bretlandi var aflýst og gripið til fleiri ráðstafana. CIA mun hafa greitt Montgomery nokkurt fé fyrir aðstoðina en hann krafðist hins vegar 100 milljón dollara fyrir hugbúnaðinn sem hann vildi ekki lýsa nánar.
Skyndilega var hætt að tala um málið. Hörð deila kom upp í Washington vegna þess að nokkrir reyndir leyniþjónustumenn urðu bálreiðir þegar þeir komust að því hver heimildin var. ,,Þið vitið að þetta er kjaftfæði!" sagði einn þeirra. Þess má geta að Montgomery var síðar handtekinn fyriir ávísanafals.