Bandarísk stjórnvöld hafa hvatt ríki heims til að herða eftirlit með áætlunarflugi eftir að tilraun var gerð í gærkvöldi til að sprengja bandaríska farþegaflugvél. Hollensk stjórnvöld segja, að öryggisráðstafanir verði auknar tímabundið í tengslum við flug til Bandaríkjanna.
Í því felst, t.d., að leitað verður á farþegum og handfarangur verður skoðaður mjög vandlega.
Nígeríumaður, sem talinn er hafa tengsl við hryðjuverkasamtökin al-Qaeda, reyndi að sprengja einhverskonar eldsprengju um borð í Airbus A330 áætlunarflugvél flugfélagsins Delta þegar hún var að lenda í Detroit í gærkvöldi. Farþegar og áhöfn vélarinnar yfirbugðu manninn sem hvar handtekinn eftir að flugvélin lenti heilu og höldnu. 278 farþegar og 11 manna áhöfn voru í vélinni, sem var að koma frá Amsterdam. Sprengjumaðurinn fékk alvarleg brunasár.
Farþegi í vélinni, sem sat skammt frá Nígeríumanninum, sem heitir Abdul Farouk Abdulmutallab, sagði að skyndilega hefði heyrst hvellur og ljósbjarmi sést. Fólk hafi fyllst skelfingu og flýtt sér í áttina að eldinum með vatn og ábreiður en föt Abdulmutallabs hafi logað. Þá hafi flugfreyja komið með slökkvitæki til að slökkva eldinn.
Annar farþegi réðist hins vegar á Abdulmutallab og hafði hann undir með aðstoð fleiri farþega eftir nokkur átök. Áhöfn vélarinnar færði manninn síðan fram í vélina og hélt honum þar í einangrun þar til vélin lenti 10-20 mínútum síðar.
Að sögn bandarískra fjölmiðla hefur Abdulmutallab, sem er 23 ára, verið samvinnufús við bandarísku alríkislögregluna FBI. Lögregla er sögð telja, að hann hafi verið einn að verki og tengist ekki hryðjuverkasamtökum með formlegum hætti. Hann sagðist hins vegar sjálfur vera útsendari hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda.
Abdulmutallab flaug fyrst frá Lagos í Nígeríu til Schipholflugvallar í Amsterdam og þaðan til Detroit. Hann var ekki á neinum flugbannslistum og nafn hans er ekki í bandarískum gagnabönkum þar sem upplýsingar um hugsanlega hryðjuverkamenn eru geymdar. Hann var ekki látinn undirgangast sérstaka leit í Amsterdam.
Ekki hefur verið upplýst hverskonar sprengju maðurinn reyndi að sprengja en FBI er að rannsaka leifarnar af henni. Hann mun hafa sagt lögreglu, að hann hafi límt hylki sem innhélt efnablöndu, við fótlegginn. Hann var síðan með duft sem hann hellti í hylkið sem átti að springa. Það mistókst hins vegar og þess í stað kviknaði eldur í buxum mannsins.
Breska sjónvarpsstöðin Sky segir, að Abdulmutallab sé verkfræðinemi sem hafi stundað nám í University College London.