Jarðskjálfti, sem mældist 6,7 stig á Richter, varð í morgun undan Malukueyjum í Indónesíu. Ekki hafa borist fréttir af manntjóni eða flóðbylgjum. Fimm ár eru í dag liðin frá því jarðsjálftar við Indónesíu ollu mikilli flóðbylgju sem varð um 250 þúsund manns að bana í löndum við Indlandshaf.
Að sögn talsmanns indónesísku jarðvísindastofnunarinnar voru upptök sjálftans á miklu dýpi undir hafsbotninum og því er ólíklegt að hann muni valda neinum usla.
Í Indónesíu og Taílandi og víðar við Indlandshaf fara í dag fram athafnir til að minnast fórnarlamba flóðbylgjunnar.