Sprengjumaðurinn er verkfræðinemi

Flugvél flugfélagsins Delta, sem reynt var að sprengja í gærkvöldi.
Flugvél flugfélagsins Delta, sem reynt var að sprengja í gærkvöldi. HO

Maðurinn sem reyndi að sprengja upp flugvél Delta-flugfélagsins sem lenti í Detroit í gær stundar nám í verkfræði við University College í London, að því er heimildir Telegraph herma.

Farouk Abdul Mutallab, sem er 23 ára Nígeríumaður, reyndi að gangsetja sprengju sem var föst við fótinn á honum stuttu áður en flugvélin bjóst til lendingar í Detroit. 278 farþegar voru um borðs í vélinni og 11 manna áhöfn. Mutallab fékk annars stigs brunasár í átökunum í gær, en farþegi sem átti þátt í því að yfirbuga manninn brenndist einnig. Mutallab er sagður hafa verið samvinnuþýður með bandarísku alríkislögreglunni. Hann segist hafa sótt sprengjubúnaðinn í Yemen.

Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu segir að litið sé á athæfið sem tilraun til hryðjuverks. Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hefur þegar átt fund með öryggissérfræðingum. Forsetinn er um þessar mundir í leyfi á Hawaii, en er sagður fylgjast vel með framvindu mála í fríinu.

Samkvæmt því sem bandarísk yfirvöld segja var sprengjan búin til úr blöndu vökva og ákveðins púðurs. Vitni sáu Mutallab reyna að blanda efnunum saman með því að sprauta vökvanum inn í púðurpoka. Núna er það skoðað hvort hryðjuverkamenn hafi fundið upp nýja tegund sprengja sem hægt er að koma í gegnum flugvallareftirlit.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka