Breti bíður dauðadóms í Kína

Akmal Shaikh
Akmal Shaikh Af vef Reprive samtakanna

Breti bíður þess að vera tekinn af lífi í Kína en hann var fyrr á árinu dæmdur til dauða fyrir smygl á heróíni. Hefur verið ákveðið að taka hann af lífi þann 29. desember en fanganum hefur ekki verið sagt frá því, samkvæmt frétt BBC. Honum verður tilkynnt um það sólarhring áður en aftakan fer fram.

Lögmannasamtökin Reprieve sem berjast fyrir mannréttindum segja ýmislegt athugavert við bæði réttarhöldin og málsmeðferðina og vonast til þess að stjórnvöld í Kína sýni miskunn.

Stuðningsmenn Shaikh segja að hann eigi við geðræn vandamál að stríða og hefur Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands beðið kínversk stjórnvöld um að sýna miskunn.

Tveir ættingjar Shaikh eru í Kína og ætla að afhenda forseta Kína, Hu Jintao bænaskjal þar sem beðið er um að hætt verði við aftökuna. Jafnframt eru breskir stjórnarerindrekar komnir til Xinjiang héraðs til þess að reyna að afstýra aftökunni. Shaikh var handtekinn í september 2007 og hefur fjölskylda hans ekki hitt hann síðan þá. Hann hefur alltaf neitað því að hafa átt þau 4 kg af heróíni sem fundust í fórum hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert