Breskar táningsstúlkur virðast í auknum mæli nota fóstureyðingu sem getnaðarvörn, ef marka má tölfræði heilbrigðisráðuneytisins þar í landi fyrir síðasta ár. Nærri 1.500 af nítján þúsund stúlkum undir átján ára sem fóru í fóstureyðingu höfðu gengist undir slíka aðgerð áður. Ein stúlknanna hafði látið eyða átta fóstrum.
Ef rýnt er betur í tölurnar má sjá, að 74 táningsstúlkur fóru í sína þriðju fóstureyðingu og aðrar fimmtán höfðu farið í þrjár til sex aðgerðir. Breska dagblaðið Mail greinir frá þessu.
Niðurstöðurnar þykja benda til að táningsstúlkur líti á fóstureyðingu sem eina tegund getnaðarvarnar, þrátt fyrir allar þær hliðarverkanir sem slíkar aðgerðir geta haft í för með sér. Einnig er bent á, að skoða verði forvarnir og þjónustu við ungar stúlkur sem virðast síður taka getnaðarvarnarpilluna en frekar áhættuna á að stunda óvarið kynlíf.