Vilja banna kommúnistaflokkinn

Vaclav Havel, þáverandi forseti Tékklands, leggur blómsveig árið 1999 á …
Vaclav Havel, þáverandi forseti Tékklands, leggur blómsveig árið 1999 á stað þar sem lögregla kommúnista réðst á stúdenta 1989. Reuters

Tveim áratugum eftir flauelsbyltinguna svonefndu í Prag eru sárin eftir valdatíð kommúnista ekki gróin og sumir vilja banna arftaka flokksins sem er sá þriðji stærsti á þingi.  Í síðustu þingkosningum 2006 fékk hann nær 13% atkvæða.

Flokkurinn kallar sig nú kommúnistaflokk Bæheims og Mæris eftir tveim helstu héruðum Tékklands. Talsmenn hans segjast alls ekki styðja lengur valdarán heldur vilji þeir lýðræði. Vojtech Filip, formaður flokksins, segist þó ekki fordæma byltingarkenningar marxismans og álítur Karl Marx hafa verið ,,mesta hugsuð árþúsundsins".

 Þekktur og umdeildur listamaður, David Cerny, segir að tékkneski flokkurinn sé sá eini sem í reynd hafi lifað af hrun kommúnismans í austurblokkinni um 1990. Tilvist hans sé hneisa fyrir þjóðina. Mörgum svíður einnig að gamlir flokksbroddar hafi notað samband sín til að efnast en margir sem fórnað hafi miklu í baráttunni gegn einræðinu verði að hjara á naumum eftirlaunum.

 Lubos Dobrovsky, gamall andófsmaður og eitt sinn varnarmálaráðherra, styður tilraunir manna sem vilja banna flokkinn. ,,Tillagan þvingar kommúnista til aðgerða og um leið munu þeir sýna sitt sanna eðli," segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert