Mikil fjölgun offituaðgerða

Um 60% fjölgun varð á offituaðgerðum í Danmörku á þessu …
Um 60% fjölgun varð á offituaðgerðum í Danmörku á þessu ári miðað við árið 2008.

Um 2.700 ofurþungir Danir hafa gengist undir skurðaðgerðir á þessu ári til að losna við aukakíló, að því er fréttavefur Berlingske Tidende greinir frá. Þeim sem gangast undir aðgerð vegna offitu hefur fjölgað um 60% frá því í fyrra.

Æ fleiri Danir kjósa að gangast undir aðgerð til að stemma stigu við offitu. Þessi liður er orðinn danska heilbrigðiskerfinu dýr, að sögn BT. Danske Regioner, samband fimm landshluta Danmerkur, ætlar að efna til samstarfs þeirra sem hagsmuna eiga að gæta á heilbrigðissviði til að leita annarra leiða til að vinna gegn útbreiðslu offitufaraldursins.

Bent Hansen, formaður Danske Regioner, segir að aðgerðir gegn offitu séu áhrifaríkar. Til dæmis losni margir við áunna sykursýki. Hins vegar skorti valkost við skurðaðgerðir gegn offitu. Ef slíkir valkostir finnist ekki geti offita orðið jafn alvarlegt heilbrigðsvandamál og reykingar eru nú.

Samkvæmt upplýsingum landshlutasamtakanna verða gerðar um 2.700 offituaðgerðir í Danmörku á þessu ári. Það er um 60% aukning frá árinu 2008. Kostnaður vegna þessara aðgerða verður um 200 milljónir danskar krónur (tæplega fimm milljarðar ÍKR).

Talið er að um 25 þúsund Danir uppfylli nú skilyrði sem sett eru fyrir því að fara í skurðaðgerð til að stemma stigu við offitu. Þeir eru með líkamsþyngdarstuðul (BMI) yfir 40 og teljast alvarlega offeitir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert