Óttast stórslys við Grænland

Skemmtiferðaskipin sigla hættulega nærri ísjökum að mati yfirmanna danska flotans …
Skemmtiferðaskipin sigla hættulega nærri ísjökum að mati yfirmanna danska flotans í Grænlandi. Reuters

Yfirmenn danska flotans í Grænlandi óttast mjög að alvarleg sjóslys geti hent skemmtiferðaskip við Grænland. Öflug varðskip verða höfð til taks við austur- og vesturströnd Grænlands yfir ferðamannatímann að sumarlagi, að sögn Henrik Kudsk, aðmíráls og yfirmanns flotastöðvarinnar í Grønnedal.

Vefsíða Politiken greinir frá áhyggjum yfirmanna danska flotans í Grænlandi. Henrik Kudsk, aðmíráll, bendir á að starfssvæði flotans við Grænland nái frá Hvarfi, suðurodda Grænlands, og allt að Norðurpólnum. Það sé ljóst að flotinn geti ekki verið alltaf til staðar á öllu þessu gríðarstóra svæði.

Aðmírállinn bendir á að reynslan frá Suðurskautslandinu sýni að skemmtiferðaskip verði að koma til bjargar verði skemmtiferðaskip fyrir óhappi. Engin önnur skip hafi þá burði sem til þurfi önnur en skemmtiferðaskip. Þess vegna mæli danski flotinn með því að útgerðir skemmtiferðaskipa starfi saman og að skipin hafi samflot í grænlensku fjörðunum.

Jan Bøgste, undirkapteinn í Grønnedal-flotastöðinni, segir spurninguna ekki snúast um hvort skemmtiferðaskipi á eftir að hlekkjast á við Grænland heldur hvenær það gerist. Hann bendir á að skemmtiferðirnar seljist út á þá reynslu sem farþegarnir fá að upplifa. 

Skemmtiferðaskipin reyni að sigla svo nálægt borgarísjökunum að fólk geti næstum snert þá berum höndum. Því nær  jökunum þess sterkari verði lífsreynslan.

„Þannig líta útgerðir skemmtiferðaskipanna á - en við sem sinnum björgunarstörfum viljum að þeir sigli eins langt frá borgarísjökunum og flekum af lagnaðarís og mögulegt er. Það er lífshættulegt að vera of nálægt.“

Á árinu sem er að líða heimsóttu 36 skemmtiferðaskip Grænland heim. Einn tiltekinn ágústdag voru 14 skemmtiferðaskip samtímis við strendur Grænlands. Tvö þeirra voru hvort um sig með 4.200 manns um borð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert