Kúrdi dæmdur fyrir heiðursmorð í Þýskalandi

Fimmtugur tyrkneskur Kúrdi var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi í Þýskalandi fyrir „heiðursmorð", en hann fyrirskipaði að tvítug dóttir hans skyldi myrt. Sonur hans, tvíburabróðir fórnarlambsins, og annar maður frömdu morðið.

Morðið var framið þann 2. með þeim hætti að mennirnir lokkuðu stúlkuna, Gulsum Semin, út á autt svæði þar sem bróðir hennar og rússneskur félagi hans kyrktu hana með efnisstranga þar til hún missti meðvitund. Mennirnir börðu hana því næst í andlitið svo illa að hún lést af áverkum sínum, sem voru svo grófir að aðkomunni var lýst þannig að því væri líkast sem hún hefði lent undir lest.

Þeir tóku síðan veski hennar til að láta líta út fyrir að um ofbeldisfullt rán hefði verið að ræða og huldu lík hennar með laufblöðum. Við réttarhöldin kom fram að höfuð stúlkunnar hefði verið svo illa leikið að hún var óþekkjanleg. Höfuðkúpan var brotin og augnbotnarnir voru brotnir.

„Gulsum var fórnarlamb hræðilegs glæps. Hún var ung, falleg og jákvæð kona. Hún var myrt fyrir engar sakir," hefur AFP eftir dómaranum. Stúlkan hafði um nokkurn tíma staðið í deilum við fjölskyldu sína vegna þess að hún hafði valið sér að aðlagast vestrænu líferni sem átti litla samleið með fjölskyldu hennar að mati föðurins, sem er íhaldssamur múslimi.

Hún flutti að heiman og bjó með albönskum manni en flutti svo aftur til fjölskyldunnar síðla árs 2008 eftir að hafa neitað að ganga í hjónaband með ættingja sínum. Daginn sem hún var myrt hafði bróðir hennar komist að því að systir hans hafði gengist undir fóstureyðingu.

Faðirinn, Yusuf Semin, var í dag fundinn sekur um að hafa lagt á ráðin um morðið, en hann hefur ávallt neitað sekt. Bróðirinn var dæmdur í 9 og hálfs árs fangelsi en faðirinn í lífstíðarfangelsi.

Frá árinu 1996 hafa yfir 50 svo kölluð heiðursmorð verið framin í Þýskalandi svo vitað sé, flest þeirra innan samfélags múslima sem eru nú um 3 milljónir í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert