Þýska endurtryggingafélagið Munich Re segir að mun minna manntjón hafi orðið af völdum náttúruhamfara á árinu 2009 en að jafnaði á fyrsta áratug aldarinnar. Hins vegar hafi skilgreindar náttúruhamfarir orðið fleiri á þessu ári en að meðaltali á síðustu áratugum eða um 850 á árinu.
Munich Re segir að kostnaður tryggingafélaga vegna náttúruhamfara hafi orðið mun minni á árinu en á árinu 2008 vegna þess að engar umfangsmiklar hamfarir hafi orðið og einnig hafi fellibyljir á Norður-Atlantshafi ekki orðið öflugir í ár.
Félagið áætlar að um 10 þúsund manns hafi látið lífið af völdum náttúruhamfara á árinu samanborið við 75 þúsund manns að jafnaði undanfarin 10 ár.
Heildartjón af völdum náttúruhamfara er metið á 50 milljarða dala en þar af var kostnaður tryggingafélaga 20 milljarðar dala. Árið 2008 var áætlað tjón af völdum náttúruhamfara 200 milljarðar dala og tryggingabætur 50 milljarðar dala.
Peter Höppe, framkvæmdastjóri hjá Munich Re sagði að þrátt fyrir þetta virðist veðurtengdar náttúruhamfarir vera að aukast. Torsten Jeworre, stjórnarmaður í félaginu, segir það mikil vonbrigði, að ekki skyldi takast á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn að ná samkomulagi um raunhæfar aðgerðir til að berjast gegn hlýnun andrúmsloftsins.