Ættingjar Bretans Akmal Shaikh sem tekinn var af lífi í Kína í gær saka nú bresk yfirvöld um að vera algjörlega valdalaus gagnvart Kínverjum vegna þess að þau séu efnahagslega háð hinu vaxandi iðnveldi. Kínversk yfirvöld hunsuðu beiðni Breta um að þyrma lífi mannsins, sem var þriggja barna faðir og sagður andlega vanheill.
Skyldmenni Shaikh saka líka Vesturlönd um tvöfalt siðferði með því að nota mannréttindi sem yfirskin fyrir að ráðast inn í lönd eins og Afghanistan, en geta ekki tekið sömu afstöðu til Kína. „Þetta er skýrt dæmi um valdaleysi Bretlands á alþjóðavettvangi. Hugmyndafræði yfirvalda um að snúa baki í bak með Bandaríkjunum í „stríðinu gegn hryðjuverkum" hefur ekki gefið þeim þá stöðu sem þau þrá svo sárt," segir fjölskyldan.
„Ef allir eru sammála um að Kína brjóti gróflega gegn grundvallarmannréttindum, hvers vegna er ekki ráðist inn í Kína eins og önnur slík lönd? Þetta hefur allt með það að gera að Kína er efnahagslega valdamikið land. Það að Bretland er efnahagslega háð Kína virðist vega mun þyngra en málefni einstaklinga."
Shaikh var fyrsti ríkisborgari Evrópusambandsins sem tekinn er af lífi í Kína í 50 ár.