Gríðarleg öryggisgæsla á Times Square

Þúsundir manna safnast saman á Times Square um hver áramót.
Þúsundir manna safnast saman á Times Square um hver áramót. GARY HERSHORN

Öryggisgæsla verður á háu stigi á Times Square torginu í New York annað kvöld þegar búist er við því að mikill fjöldi manna safnist saman að venju til að fagna nýja árinu og kveðja hið gamla.

Engir bakpokar eða áfengisflöskur verða leyfð á torginu, sem stendur í hjarta Manhattan umkringt hinum víðfrægu ljósaskiltum. Risastóra kúlan sem fellur á miðnætti eftir niðurtalningu mannhafsins er nú tilbúin og það eru öryggismyndavélarnar líka, óeinkennisklæddu lögreglumennirnir og sprengjuskynjararnir.

„Þetta verður fullbúin öryggisgæsla að öllu leyti," hefur AFP eftir lögreglustjóranum Ramond Kelly. „Við gerum ráð fyrir því hér að New York sé efst á lista hryðjuverkamanna hér í Bandaríkjunum."

Engar sérstakar hótanir hafa borist en Bandaríkjamenn eru enn á varðbergi eftir sprengjuárásina misheppnuðu á jóladag og ljóst að áramótafögnuðurinn á New York er að mörgu leyti aðlaðandi fyrir hryðjuverkamenn þar sem hann laðar að sér mikinn mannfjölda og er sýndur í beinni sjónvarpsútsendingu.

Ekki er þó ætlunin að hafa öryggisgæsluna mjög áberandi, heldur dulda svo gestir í veisluskapi geti einbeitt sér að því að telja áhyggjulaust niður í áramótin þegar kúlan fellur að aldargömlum sið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert