Að minnsta kosti 7.500 Palestínumenn eru í fangelsum í Ísrael nú í árslok 2009. Þetta segja fulltrúar palestínsku heimastjórnarinnar. Á meðal hinna fangelsuðu eru 34 konur, 310 börn og 304 manns sem haldið er í varðhaldi án þess að dómur hafi fallið í málum þeirra. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá heimastjórninni.
Á meðal fanganna eru einnig 17 þingmenn, flestir þeirra meðlimir í Hamas, tveir fyrrverandi ráðherrar og nokkur fjöldi annarra stjórnmálamanna. Mikill meirihluti fanganna, eða 6.330 þeirra, eru frá Vesturbakkanum. 750 til viðbótar eru frá Gaza-ströndinni og um 420 eru frá Jerúsalem eða Ísrael.
Þeir sem lengst hafa setið inni eru tveir bræður, Fakhri og Nail Barghuti, og Akram Mansur, sem allir hafa verið í fangelsi í 32 ár. Þeir eru á meðal 317 manna sem fangelsaðir voru áður en palestínska heimastjórnin var sett á fót árið 1994, í kjölfar Óslóar-samkomulagsins.
Í skýrslunni segir einnig að 197 fangar hafi dáið í vörslu Ísraelsmanna síðan 1967. Yfir 5.000 Palestínumenn voru fangelsaðir á einhverjum tímapunkti á þessu ári, og að meðaltali 14 á dag. Flestum þeirra hefur verið sleppt aftur.
Ísraelar og Hamas-samtökin hafa í nokkra mánuði reynt að gera með sér samkomulag um fangaskipti, þess efnis að fjölmörgum Palestínumönnum verði sleppt í skiptum fyrir ísraelskan Hermann sem tekinn var höndum á Gaza-ströndinni árið 2006. Þær viðræður hafa farið fram í gegnum egypska og þýska sáttasemjara.