Árásarmaður enn á sjúkrahúsi

Kurt Westergaard.
Kurt Westergaard. Reuters

Sómali, sem ruddist inn í hús danska teiknarans Kurts Westergaards í gærkvöldi vopnaður öxi og hnífi, er enn á sjúkrahúsi en lögregla skaut hann í fótinn og handlegg. Maðurinn verður ákærður síðar í dag fyrir morðtilraunir. Danska öryggislögreglan segir að hann tengist hryðjuverkasamtökum.

Ole Mabsen, lögreglustjóri, segir að maðurinn, sem er 28 ára og er búsettur í Danmörku, verði ákærður fyrir að reyna að myrða Westergaard og lögreglumann sem hann réðist á. Þá verður krafist gæsluvarðhalds yfir honum.

Danska öryggislögreglan PET segir, að maðurinn tengist sómölsku öfgasamtökunum Shebab og leiðtogum al-Qaeda í Austur-Afríku.  Þá sé hann félagi í hryðjuverkasamtökum sem skotið hafi rótum í Danmörku og sem danska lögreglan hafi lengi fylgst með.

Westergaard, sem býr í rammgerðu húsi í Viby skammt frá árásum, hefur fengið morðhótanir frá því hann teiknaði mynd af Múhameð spámanni með sprengju í vefjarhetti sínum. Árásarmanninum tókst þó að brjóta rúðu í útihurð hússins og komast síðan inn þar sem Westergaard var ásamt barnabarni sínu. Westergaard læsti sig inni á baðherbergi, sem breytt hefur verið í öryggisherbergi, og kallaði lögreglu til. Hún kom að vörmu spori og þá réðist maðurinn að lögreglumönnum sem skutu á hann.

Westergaard sagði við Ritzau fréttastofuna, að maðurinn hefði reynt að brjóta baðherbergishurðina með öxi og hamri en ekki tekist. „Hann hrópaði ókvæðisorð á lélegri dönsku og sagðist ætla að snúa aftur," sagði Westergaard.

Tveir Túnisbúar voru handteknir í Danmörku árið 2008, grunaðir um að ætla að reyna að myrða Westergaard en þeim var sleppt án réttarhalda. 

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert