Fagna árás á danskan teiknara

Félagar í Shebab í Sómalíu.
Félagar í Shebab í Sómalíu. Reuters

Íslömsku samtökin Shebab í Sómalíu fögnuðu því í dag að Sómali, búsettur í Danmörku, hafi reynt að ráða danska teiknarann Kurt Westergaard af dögum í gærkvöldi. Danska öryggislögreglan sagði að árásarmaðurinn tengdist Shebab og leiðtogum hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda.

„Við kunnum að meta atvikið þar sem sómalskur múslimapiltur réðist á djöfulinn sem misþyrmdi spámanninum Múhameð og við hvetjum alla múslima um allan heim til að ráðast á fólk eins og hann," sagði   Sheikh Ali Muhamud Rage, talsmaður Shebab.

Rage sagði að hugsanlega haldi einhverjir því fram að maðurinn tengdist Shebab og öðrum íslömskum samtökum.  „En það er almenn skylda múslima að verja trú sína og spámanninn. Hann gerði aðeins það sem hver annar múslimi hefði getað gert." 

Shebab ræður stórum hluta af suður- og miðhluta Sómalíu og hefur einnig náð valdi á hluta höfuðborgarinnar Mogadishu þar sem félagar í samtökunum gera stöðugt árásir á stjórnarhermenn og her Afríkusambandsins. Samtökin sögðust í gær ætla að senda stríðsmenn til Jemen til að aðstoða hóp, tengdum Al-Qaeda, sem skipulagði tilraun til að sprengja bandaríska farþegaflugvél á jóladag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert