Fyrstu skipulögðu úlfaveiðarnar í 45 ár hefjast í Svíþjóð í dag. Talið er að um 10 þúsund manns munu taka þátt í veiðunum þótt aðeins verði leyft að skjóta 27 úlfa. Talið er að 180-220 dýr séu í villta úlfastofninum í Svíþjóð.
Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir formanni samtaka sænskra veiðimanna, að þess verði afar vel gætt að of margir úlfar verði ekki skotnir.
Sænsku náttúruverndarsamtökin segja hins vegar að það brjóti gegn reglum Evrópusambandsins að leyfa úlfaveiðar þar sem stofninn hafi ekki náð sér nægilega vel. Verður framkvæmdastjórn Evrópusambandsins send formleg kvörtun.
Úlfum var nánast útrýmt í suðurhluta Svíþjóðar og Noregi en veiðibann var sett á miðjum áttunda áratug síðustu aldar. Stofninn hefur síðan stofnað hægt og hægt en þegar norsk stjórnvöld leyfðu takmarkaðar úlfaveiðar árið 2001 mótmæltu Svíar.
Sænska þingið samþykkti hins vegar nýlega að hámark úlfastofnsins skuli vera 210 dýr. Sænska umhverfisstofnunin segir, að stofninn hafi náð þeirri stærð í fyrra og síðan hafi 20 úlfapör eignast hvolpa.