Danski skopmyndateiknarin Kurt Westergaard segir að litlu hafi munað að Sómala, sem reyndi að ráða hann af dögum vegna skopmynda af Múhameð spámanni sem birtust í Jótlandspóstinum árið 2005, hafi tekist ætlunarverk sitt.
Westergaard segir að árásarmanninum, sem var vopnaður öxi, hafi tekist að komast inn á heimili sitt. Hann hafi hrópað hefnd og blóð á lélegri dönsku.
„Ég faldi mig í öryggisherbergi þegar hann kom inn í húsið. Ég vissi að ég ætti ekki möguleika á því að stöðva hann, og því hringdi ég í lögregluna,“ segir Westergaard í samtali við vefútgáfu Jótlandspóstsins.
„Þetta var hræðilegt. Það sem er mikilvægast er að mér tókst að bregðast við og koma sjálfum mér í öruggt skjól. En það munaði litlu, mjög litlu.“
Dönsk yfirvöld segja að árásarmaðurinn sé frá Sómalíu. Hann tengist sómalísku Shebab-hreyfingunni og al-Qaeda.
Westergaard hafa borist margar morðhótanir frá því dagblaðið birti myndirnar.